Monthly Archives: June 2013

Kynjahlutföll í læknadeild Háskóla Íslands

Síðasta föstudag var ég boðinn með konunni minni til að vera viðstaddur athöfn í tilefni af útskrift tveggja lækna, sem lokið höfðu sérnámi í líknandi meðferð frá háskólasjúkrahúsinu í Madison, Wisconsin. Þar hitti ég prófessor í krabbameinslækningum og líknandi meðferð, sem er áhugasamur um tölfræði í læknisfræði og samfélagsmiðla. Hann spurði mig um kynjahlutföll í læknadeild Háskóla Íslands, sem ég gat ekki svarað. Um helgina skoðaði ég gögn frá Háskóla Íslands um þessa þróun.

Hlutfall karla og kvenna meðal nýútskrifaðra lækna frá Háskóla Íslands. Gender ratios among graduates from University of Iceland, department of medicine. Heimild: Háskóli Íslands.

Hlutfall karla og kvenna meðal nýútskrifaðra lækna frá Háskóla Íslands. Heimild: Háskóli Íslands.
Gender ratios among graduates from University of Iceland, Department of Medicine. Source: University of Iceland.

Myndin til hægri sýnir hlutföll karla og kvenna meðal nýútskrifaðra læknakandídata frá Háskóla Íslands frá árinu 1973 til 2012. Punktarnir sýna hlutfallsskiptingu fyrir einstök ár en heilu línurnar eru nálgun með breyilegum margliðuföllum, sk. Loess-ferlum.

Árið 1973 útskrifuðust ein kona og þrjátíu karlar úr læknadeild Háskóla Íslands. Á áttunda og níunda áratugnum sóttu konur í sig veðrið en á tíunda áratugnum var aukningin hægari. Frá aldamótum hefur konum fjölgað hraðar og þær hafa verið í meirihluta allra útskritarárganga frá árinu 2006. Seinustu árinu hafa konur verið u.þ.b. 60% útskriftarnema en karlar um 40%.

Myndin byggir á upplýsingum af heimasíðu Háskóla Íslands fyrir útskriftarárganga 1993 og síðar og Árbók Háskóla Íslands fyrir fyrri ár.

English summary:

Last Friday, my wife and I were invited to a graduation ceremony for the UW-Madison fellowship program in hospice and palliative care. Dr. Jim Cleary, professor in oncology and palliative care, and social media geek by self description, was curious about gender ratios among graduates from the University of Iceland, Department of Medicine.

During the weekend I acquired data from the University of Iceland webpage and past annual reports. The figure above shows ratios of male and female graduates from the Department of Medicine at the University of Iceland. In 1973, one female graduated and thirty males. Now, fourty years later, female graduates have taken the lead. The dots represent each year's ratio and the solid lines are smoothed Loess-curves. Female graduates now account for about 60% of each class and males 40%.

Huldar skuldir

Vikuritið The Economist gerir fjármál Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum að umfjöllunarefni í nýjasta tölublaðinu. Tilefnið er hallarekstur ríkisins, sem nú hyllir fyrir endan á - a.m.k. ef marka skyldi ársreikninga. Í umræðu um fjármál einstakra fylkja Bandaríkjanna hefur Kaliforníuríki áður verið líkt við stöðu Grikklands í samanburði við önnur ríki Evrópu. Blaðið beinir sjónum sínum að skuldum Kaliforníu og sér í lagi að lífeyrisskuldbindingum. Þær eru sagðar að hluta vanmetnar miðað við reikningsskilareglur sem giltu ef um einkafyrirtæki væri að ræða.

Í leiðara blaðsins eru lífeyriskerfi ríkja Bandaríkjanna, sem svipað er ástatt með, gerð að umtalsefni. Þar kemur fram að í mörgum ríkjum skorti verulega á að til séu sjóðir til þess að mæta áföllnum skuldbindingum. Þá séu enn að falla á kerfin skuldbindingar, sem fyrirsjáanlega munu kosta skattgreiðendur meira en áætlað núvirði þeirra núna segir til um. Ritstjórn The Economist segir að stjórmálamenn hafi fyrir löngu áttað sig á hagkvæmi þess að bjóða opinberum starfsmönnum góð eftirlaunakjör. Það tryggi þeim atkvæði en reikninginn þurfi ekki að senda fyrr en síðar.

Lífeyriskerfi skiptast almennt í tvo flokka; kerfi með föst skilgreind réttindi sjóðsfélaga (defined benefit) og kerfi með fast skilgreint sparnaðarhlutfall (defined contribution). Í fyrrnefnda flokknum eru lífeyrisréttindi fest við tiltekið hlutfall ævilauna og taka þá oftast mið af launum síðustu ára starfsævinnar. Með skilgreindu sparnaðarhlutfalli er um að ræða sjóðssöfnun en ávöxtun ræður á endanum útgreiðslum, sem sjóðsfélagi nýtur.

Það er rakið í nokkrum liðum hver meginvandi ríkjanna sé vegna lífeyrisskuldbindinga, sem tryggja föst réttindi. Sum ríki leyfi starfsmönnum að hámarka laun t.d. með yfirvinnu á lokaárum starfsævinnar og það auki greiðslur til þeirra eftir að taka eftirlauna hefst. Þá séu skuldbindingar ríkjanna núvirtar með æði hárri ávöxtunarkröfu, sem sjóðum þeirra er ætla að ná. Nefnd er vænt ávöxtunarkrafa upp á 7,5% en á síðustu misserum hefur krafa langra ríkisskuldabréfa bandaríska ríkisins nálgast tvö prósentustig. Hærri ávöxtunarkrafa þýðir að núvirði framtíðargreiðslna sé áætlað lægra en ella. Einkafyrirtæki núvirða skuldbindingar sínar með 4,7% ávöxtunarkröfu, sé miðað við miðgildi, og mörg hver hafa lokað sínum kerfum með föst skildgreind réttindi fyrir nýjum sjóðsfélögum.

Leiðarahöfundar nefna að matsfyrirtæki eins og Moody's séu farin að nota markaðskröfu vegna lífeyrisskuldbindinga við mat á greiðsluhæfi einstakra ríkja Bandaríkjanna. Nefnd eru dæmi um ríki sem vantar hvað mest upp á að eigi sjóði til þess að mæta lífeyrisgreiðslum. Eftirlaunasjóður Illinois-ríkis eigi t.a.m. um 40% til að mæta áföllnum skuldbindingum og New Jersey 53%. Auknar lífslíkur leiða sömuleiðis til aukinna skuldbindinga. Nefnt er að CalSTR, eftirlaunasjóður kennara, þurfi árlega meðgjöf Kaliforníuríkis upp á 4,5 milljarða Bandaríkjadala næstu 30 árin. Bara sú fjárhæð er hærri en áætlaður afgangur þessa árs.

Höfundar klikkja út með því að tími sé til að breyta og hætta að bjóða eftirlaun, sem taki mið af lokalaunum. Eftirlaunasjóðir verði á endanum þurrausnir og þurfi skattgreiðendur að greiða það sem út af muni standa.