Daily Archives: January 16, 2017

Fjármálaráðuneytið gefur út líftöflur

Dánar- og eftirlifendalíkur

Dánar- og eftirlifendalíkur á vef Félags íslenskra tryggingastærfræðinga.

Á fyrsta starfsdegi nýs ráðherra í síðustu viku birti Fjármála- og efnahagsráðuneytið tilkynningu þess efnis að það hefði fallist á tillögur Félags íslenskra tryggingastærfræðinga (FÍT) um nýjar dánar- og eftirlifendatöflur, einnig oft kallaðar líftöflur (e. lifetables). Nýlega var reglugerð um forsendur tryggingafræðilegrar athugunar breytt en áður gaf FÍT töflurnar út, án aðkomu ráðuneytisins.

Félagið kynnti á sínum tíma drög að breyttri aðferðafræði þar sem það hugðist byggja spá um áframhaldandi lækkun dánartíðni inn í líftöflur sínar. Með því vildi félagið fylgja fordæmi margra nágrannalanda, sem grundvalla tryggingafræðilegar athuganir á áframhaldandi lengingu lífaldurs. Nýju töflur FÍT byggja á reynslu áranna frá 2010 til 2014 að báðum árum meðtöldum en nota ekki framtíðarspá.

Áður hefur verið rakið á hér á þessari síðu að þessar nýju líftöflur FÍT munu hækka eftirlaunaskuldbindingar lífeyrissjóða. Aukningin skuldbindinga mun verða meiri vegna karla, sem saxa aðeins á forskot kvenna m.v. vænta ævilengd. Samkvæmt nýju töflunum geta karlar nú vænst að lifa í 80,1 ár og vænt ævilengd kvenkyns nýbura er 84,0 ár.