Er minna meira?

Skjáskot úr auglýsingu samtaka atvinnulífsins.

Skjáskot úr auglýsingu Samtaka atvinnulífsins sem sýnir hækkun launa og verðlags á árunum frá 2006 til 2013. Heimild: sa.is.

Það fór vart fram hjá fréttaþyrstum að Samtök atvinnulífsins frumsýndu sjónvarpsauglýsingu í vikunni þar sem umfjöllunarefnið voru verðlag, laun og kaupmáttur þeirra á Íslandi. Boðskapur auglýsingarinnar er hversu mikið verðbólga hefur rýrt kaupmátt launa í landinu. Auglýsingin var í sk. infographics-stíl, þ.e. hún blandaði saman flæðandi tölum, myndritum og táknmyndum, sem hreyfðust í takt við skilaboð auglýsandans.

Yfirbragði infographics-framsetninga er ætlað að vera einfalt og stundum þannig að slakað er um of á eðlilegum kröfum við framsetningu myndrita, s.s. að merkja ása, geta heimilda o.s.frv. Hér er ætlunin að hemja áráttu-þráhyggjuna en rétt að benda á þessi grundvallaratriði í gagnaframsetningu. Því ber fyrst og fremst að fagna þegar fólk og fyrirtæki nota raunveruleg gögn til ákvarðanatöku eða styðja málstað sinn.

Í auglýsingunni bar fyrir línuritinu, sem sýnt er efst til hægri. Bláu og rauðu línurnar sýna þróun launa frá árinu 2006 til 2013 annars vegar og almenns verðlags hins vegar. Græna og ljósgræna lína sýna þróun verðlags og launa á öðrum Norðurlöndum.

Vísitala launa og vísitala neysluverðs frá 2006 til 2013.

Vísitala launa og vísitala neysluverðs frá 2006 til 2013. Heimild: Hagstofa Íslands.

Myndin hérna til vinstri er endurgerð á línuritinu úr auglýsingu Samtaka atvinnulífsins. Hún byggir á tölum frá Hagstofu Íslands og sýnir meðalgildi vísitalnanna á hverju almanaksári. Meðaltal alls ársins 2013 liggur ekki fyrir og þess í stað reiknað meðaltal mánaðanna janúar til október.

Báðar vísitölur eru kvarðaðar miðað við gildið 100 árið 2006 og í megindráttum er lögun ferlanna eins og kemur fram í auglýsingunni.  Frá 2006 hefur vísitala launa hækkað um 56% en vísitala neysluverðs um 58%. Það er samhljóða niðurstöðum Samtaka atvinnulífsins um að þrátt fyrir miklar launahækkanir á undanförnum árum þá hefur kaupmáttur launa rýrnað örlítið sé miðað við þetta tímabil.

Vísitala launa og ársbreyting vísitölu launa.

Vísitala launa m.v. meðaltal hvers árs (efri) og ársbreyting vísitölu launa (neðri). Heimild: Hagstofa Íslands.

Til þes að kryfja gögnin til mergjar og sannreyna fullyrðingar SA er ástæða til að skoða þróunina yfir lengra tímabil.

Myndin hérna til hægri sýnir þróun vísitölu launa frá árinu 1989 til 2013. Eins og á fyrri mynd eru gögnin kvörðuð m.v. gildið 100 árið 2006, sem breytir þó ekki lögun ferilsins. Á tímabilinu hefur vísitala launa hækkað um 329%.

Að meðaltali hefur árleg hlutfallsbreyting á vísitölu launa verið 6,3%. Fyrstu fjórðungsmörkin eru 4,8% sem þýðir að eitt ár af hverjum fjórum hafa launahækkanir verið lægri en sem því nemur. Þriðju fjórðungsmörkin eru 8,2% sem þýðir að fjórðung áranna hafa launahækkanir verið hærri en það. Helming áranna hafa launahækkanir verið á bilinu 4,8% til 8,2%.

Vísitala neysluverðs m.v. meðalgildi hvers árs (efri) og breyting á vísitölu neysluverðs (neðri). Heimild: Hagstofa Íslands.

Vísitala neysluverðs m.v. meðalgildi hvers árs og breyting á vísitölu neysluverðs.

Vísitala neysluverðs hefur einnig hækkað verulega á tímabilinu. Ferillinn er sýndur hérna til vinstri og skalaður m.v. gildið 100 árið 2006. Frá árinu 1998 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 225%. Á tímabilinu hefur ársverðbólga mælst 5,1% að meðaltali.

Fyrstu og þriðju fjórðungsmörk árlegra hlutfallsbreytinga vísitölunnar eru 3,0% og 5,2% sem þýðir að helming áranna hefur hlutfallsbreytingin legið á því bili. Fjórðung áranna hefur breytingin verið minni og fjórðung áranna hefur hún verið meiri.

Kaupmáttur launa er reiknaður sem hlutfallsbreyting launa umfram hlutfallsbreytingu á verðlagi. Ef laun hækka umfram verðbólgu eykst kaupmáttur en ef verðbólgan er meiri þá rýrnar kaupmáttur.

Vísitala kaupmáttar launa og ársbreyting kaupmáttarvísitölu.

Vísitala kaupmáttar launa (efri) og ársbreyting kaupmáttarvísitölu (neðri). Heimild: Hagstofa Íslands.

Hagstofa Íslands reiknar vísitölu kaupmáttar, sem byggir á vísitölunum hér að framan. Myndin til hægri sýnir vísitölu kaupmáttar launa og árlegar breytingar á henni.

Sautján ár af síðastliðnum 24 hefur kaupmáttur launa aukist en sjö ár hefur dregið úr honum. Hér er aftur miðað við meðaltal vísitölunnar fyrir hvert almanaksár. Að meðaltali hefur kaupmáttur aukist um 1,2% á ári.

Mörk fyrsta fjórðungs eru -0,4%, sem þýðir að fjórðung áranna hefur kaupmáttur rýrnað um meira en sem nemur 0,4 prósentustigum. Þriðju fjórðungsmörkin eru 2,9% sem þýðir að fjórðung áranna hefur kaupmáttur aukist umfram það.

Samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands hefur kaupmáttur launa aukist um 32% á tímabilinu öllu.

Í aðdraganda komandi kjarasamninga hafa forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins talað fyrir hóflegum launahækkunum. Inntak áðurnefndrar auglýsingar er að að 2% hækkun muni skila sér í hærri kaupmætti en verði hækkunin á bilinu 5-6%. Óhætt er að segja að auglýsingin hafi vakið athygli. Framsetningin hleypti illu blóði í suma forsvarsmenn launþegahreyfinga og einhverjir vildu meina að ekki væri öll sagan sögð. Ástæður aukinnar verðbólgu á Íslandi ættu sér einnig rót í óstöðugu gengi íslensku krónunnar og það kann að verða umfjöllunarefni hér síðar.

Samband launa og kaupmáttar

Við greiningu á slembiferlum (random process) í merkjafræði og tímaraðagreiningu er mikilvægt að gera sér grein fyrir skilyrðum um hvenær þau teljast stöðug eða í jafnvægi (stationary). Í því samhengi er hæpið að teikna tvær vaxandi tímaraðir, sem hvorug uppfyllir áðurnefnd skilyrði, og gera ráð fyrir að samband sé á milli þeirra. Hær væri nær að skoða fyrstu afleiðu sambands þeirra, t.d. árlega hlutfallsbreytingu þessara mælikvarða.

Myndirnar hér fyrir neðan lýsa sambandi á ársbreytingu launavísitölu og breytinga kaupmáttar. Í þessari framsetningu er ársbreyting launa frumbreytan (explanatory variable) en breyting kaupmáttar fylgibreytan (dependent variable).

Á myndinni efst til vinstri táknar sérhver punktur hlutfallsbreytingu launa og kaupmáttar á sama ári. Staða bláu punktanna miðað við lárétta ásinn lýsir hlutfallsbreytingu launa frá fyrra ári og lóðrétt staða þeirra lýsir breytingu kaupmáttar. Græna línan táknar hefðbundið línulegt líkan sem lýsir sambandi sambandi þessara breytistærða. Rauði ferillinn lýsir LOWESS-líkani sem sett saman úr margliðuföllum.

Það er þarf kannski ekki að koma á óvart að það er jákvætt samband á milli breytingar á launum og kaupmætti þeirra fyrsta árið þótt sambandið sé ekki tölfræðilega marktækt. Fyrir hvert prósentustig sem laun hækka eykst kaupmáttur um hálft prósent. Árin 1990, 2008 og 2009 skera sig úr þessu mengi punkta þegar kaupmáttur launa rýrnaði umtalsvert.

Samband breytinga á vísitölu launa og vísitölu kaupmáttar með og án hliðrunar..

Samband breytinga á vísitölu launa og vísitölu kaupmáttar. Efri myndin til vinstri lýsir sambandi kaupmáttar sama ár og launabreyting. Myndin uppi til hægri lýsir breytingu kaupmáttar og launabreytingar ári áður. Myndirnar í neðri röð lýsa breytingu kaupmáttar tveimur og þremur árum síðar. Heimild: Hagstofa Íslands

Myndin efst til hægri lýsir sambandi breytinga á kaupmætti og launabreytinga einu ári áður. Það er ekki fylgni á milli sambands kaupmáttarbreytinga og launabreytinga ársins á undan.

Áhugavert er að skoða neðri myndirnar sem lýsa sambandi breytinga á vísitölu kaupmáttar með tveggja og þriggja ára seinkun. Línulegu líkönin sýna að samband kaupmáttar og launabreytinga tveimur og þremur árum áður er neikvætt. Ef rýnt er í LOWESS-ferlana má raunar greina að framan af eru þeir nær flatir, sem þýðir að á bilinu undir fjórum eða sex prósentustigum er lítið samband á milli breytingar á kaupmætti og launum. Niðurstöðurnar styðja við þá skoðun að launahækkanir umfram þessi mörk séu ekki líklegar til að tryggja aukinn kaupmátt til lengri tíma litið.

Víst er að aðilar vinnumarkaðarins standa ekki frammi fyrir öfundsverðu verkefni þegar þeir hefja karp um kaup og kjör á næstunni. Bæði launþegar og atvinnurekendur hafa fengið að finna fyrir víxlhækkunum verðlags og launa og orðnir langeygir eftir minni óvissu um framtíðina.

Orð eru til alls fyrst og gott ef einhver vill læra af reynslunni.

One thought on “Er minna meira?

  1. Pingback: Samanburður við Svíþjóð | Hagur

Comments are closed.