Lífslíkur við starfslok

Í síðasta innleggi voru bornar saman lífslíkur eftir búsetu. Þar kom fram að meðalævilengd karla á Suðurlandi og i Suðvesturkjördæmi er lengri en hjá körlum í öðrum landshlutum. Konur á Norðurlandi vestra lifa að jafnaði lengur en aðrar konur á Íslandi. Útreikningarnir byggja á opinberum upplýsingum frá Hagstofu Íslands um dánartíðni og búsetu. Hér er stuðst við 10 ára tímabil frá 2003 til 2014 til að lækka óvissumörk.

Samkvæmt gögnunum má einnig reikna að meðalævi bæði karla og kvenna er styst á Reykjanesi. Miðað við 95% óvissumörk reynist vera marktækur munur á meðlævilengd kvenna á Reykjanesi og kvenna á landinu öllu. Munurinn er ekki tölfræðilega marktækur fyrir karla suður með sjó.

Lífslíkur karla og kvenna á Íslandi við 65 ára aldur

Lífslíkur karla og kvenna á Íslandi við 65 ára aldur byggt á dánartíðni áranna 2004 til 2013. Heimild: Hagstofa Íslands.

Með sömu aðferð er hægt að reikna meðalævilengd á hverju aldursári. Áhugavert er að skoða lífslíkur við starfslok. Með meðalævilengd við 65 ára aldur er átt við sk. skilyrt líkindi og útreikningarnir miða aðeins við þá sem ná þeim aldri.

Samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands má sjá að karlar eiga að jafnaði 18,2 ár ólifuð við 65 ára aldur en konur 20,6 ár. Myndin hér til hægri sýnir lífslíkur karla og kvenna á Íslandi við 65 ára aldur.

Landshluti Karlar ± Konur ± Mismunur
Landið allt 18,2 0,2 20,6 0,3 2,4
Reykjavík 17,8 0,4 20,5 0,4 2,7
Suðvestur 18,8 0,5 21,0 0,6 2,2
Vesturland 18,2 1,1 20,2 1,1 2,0
Vestfirðir 17,7 1,4 20,4 1,5 2,8
Norðurland vestra 18,5 1,3 21,1 1,5 2,7
Norðurland eystra 18,1 0,7 20,6 0,8 2,5
Austurland 18,5 1,2 20,6 1,3 2,1
Suðurland 18,6 0,9 20,7 0,9 2,1
Reykjanes 17,7 1,1 18,4 1,1 0,7
Lífslíkur kvenna á Íslandi við 65 ára aldur

Lífslíkur kvenna á Íslandi við 65 ára aldur byggt á dánartíðni áranna 2004 til 2013. Heimild: Hagstofa Íslands.

Röð landshluta í samanburði á meðalævilengd við 65 ára aldur er lítið frábrugðin meðalævilengd nýbura, sem fjallað var um í síðustu færslu. Meðalævi kvenna við 65 ára aldur er lengst á Norðurlandi vestra. Þar geta konur vænst þess að lifa 21,1 ár (±1,5) til viðbótar en munurinn er ekki tölfræðilega marktækur.

Konur, sem náð hafa 65 ára aldri og búa á Reykjanesi, geta vænst þess að lifa í 18,4 ár (±1,1) til viðbótar. Það telst vera tölfræðilega marktækur munur miðað við meðalævi allra kvenna á Íslandi, sem náð hafa 65 ára aldri.

Myndin hérna til vinstri sýnir lífslíkur kvenna við 65 ára aldur. Rauða línan lýsir meðaltali alls landsins en fjólubláa línan sýnir lífslíkur kvenna á Reykjanesi og brúna línan táknar Norðurland vestra. Brotastrikin tákna 95% öryggismörk.

Lífslíkur karla á Íslandi við 65 ára aldur

Lífslíkur karla á Íslandi við 65 ára aldur byggt á dánartíðni áranna 2004 til 2013. Heimild: Hagstofa Íslands.

Myndin hérna til hægri sýnir lífslíkur karla á Íslandi. Bláa línan táknar meðaltal á öllu landinu, græna línan lífslíkur karla á Reykjanesi og sú appelsínugula karla í Suðvesturkjördæmi

Lífslíkur 65 ára karla, sem búa í Suðvesturkjördæmi, eru 18,8 ár (±0,5) og lífslíkur karla á Reykjanesi eru 17,7 ár (±1,1). Þessi munur telst þó ekki vera tölfræðilega marktækur.

Þeir sem misstu af síðasta innleggi um meðalævilengd nýbura geta lesið meira hér.