Tag Archives: Lífslíkur

Af eignum (og skuldum) lífeyrissjóða

Nýtt tölublað Fjármála, vefrits Fjármálaeftirlitsins, er komið út. Þar er að finna grein síðuhöfundar um skuldbindingar lífeyrissjóða og forsendur mats á tryggingafræðilegri stöðu. Eignir lífeyrissjóða eru oftast í forgrunni en skuldbindingarnar rata sjaldnar í fréttir.

„Þótt nýjustu tölur Hagstofu Íslands geti gefið vísbendingar um að dánartíðni hafi lækkað hægar allra síðustu árin en áratugina þar á undan þá er ástæða til að hafa áhyggjur af að lengri lífaldur leiði til að skuldbindingar sjóðanna séu vanmetnar.

Auk forsendna um lífslíkur skipta vextir ekki síður máli við mat á skuldbindingum.“

Jólatölublað Fjármála 2019 má nálgast hér og frétt um útgáfuna hér.

Fjármálaráðuneytið gefur út líftöflur

Dánar- og eftirlifendalíkur

Dánar- og eftirlifendalíkur á vef Félags íslenskra tryggingastærfræðinga.

Á fyrsta starfsdegi nýs ráðherra í síðustu viku birti Fjármála- og efnahagsráðuneytið tilkynningu þess efnis að það hefði fallist á tillögur Félags íslenskra tryggingastærfræðinga (FÍT) um nýjar dánar- og eftirlifendatöflur, einnig oft kallaðar líftöflur (e. lifetables). Nýlega var reglugerð um forsendur tryggingafræðilegrar athugunar breytt en áður gaf FÍT töflurnar út, án aðkomu ráðuneytisins.

Félagið kynnti á sínum tíma drög að breyttri aðferðafræði þar sem það hugðist byggja spá um áframhaldandi lækkun dánartíðni inn í líftöflur sínar. Með því vildi félagið fylgja fordæmi margra nágrannalanda, sem grundvalla tryggingafræðilegar athuganir á áframhaldandi lengingu lífaldurs. Nýju töflur FÍT byggja á reynslu áranna frá 2010 til 2014 að báðum árum meðtöldum en nota ekki framtíðarspá.

Áður hefur verið rakið á hér á þessari síðu að þessar nýju líftöflur FÍT munu hækka eftirlaunaskuldbindingar lífeyrissjóða. Aukningin skuldbindinga mun verða meiri vegna karla, sem saxa aðeins á forskot kvenna m.v. vænta ævilengd. Samkvæmt nýju töflunum geta karlar nú vænst að lifa í 80,1 ár og vænt ævilengd kvenkyns nýbura er 84,0 ár.

Nýjar dánar- og eftirlifendatöflur

Árlega ber lífeyrissjóðum að láta fara fram tryggingafræðilega athugun til þess að leggja mat á hvort jöfnuður sé milli eigna og skuldbindinga. Tryggingafræðileg athugun byggir á almennum tryggingafræðilegum forsendum, m.a. um dánaráhættu og raunvexti.

Fram til þessa hefur Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga (FÍT) haft það hlutverk að gefa út dánar- og eftirlifendatöflur samkvæmt ákvæðum reglugerðar 391/1998. Í samræmi við nýgerðar breytingar á reglugerðinni hefur Fjármálaráðuneytið núna það hlutverk að gefa út töflurnar að fenginni ráðgjöf FÍT. Í október gaf FÍT út nýjar dánar- og eftirlifendatöflur sem gert er ráð fyrir að verði notaðar til grundvallar mati á skuldbindingum lífeyrissjóða í næstu trygingafræðilegu athugun á árinu 2017. Félagið byggir mat sitt á gögnum frá Hagstofu Íslands.

Samkvæmt nýútgefnum töflum Félags íslenskra tryggingastærfræðinga hafa lífslíkur beggja kynja aukist en aukningin er hlufallslega meira hjá körlum en konum. Vænt ævilengd karlkyns nýbura jókst um 0,6 ár frá 2011 til 2014 en aukningin var 0,4 ár hjá kvenkyns nýburum. Vænt ævilengd íslenskra karla er nú í fyrsta skipti yfir 80 ár og konur mega vænta þess að lifa í 84 ár. Taflan hér á eftir sýnir samanburð á væntri ævilengd miðað við gömlu og nýju dánar- og eftirlifendatöflur FÍT.

Vænt ævilengd Karlar Konur Þjóðin
við fæðingu m.v. reynslu 2010-2014 80,1 84,0 82,0
við fæðingu m.v. reynslu 2007-2011 79,5 83,6 81,5
við 65 ára aldur m.v. reynslu 2010-2014 18,9 21,1 20,1
við 65 ára aldur m.v. reynslu 2007-2011 18,4 20.8 19,6
við 70 ára aldur m.v. reynslu 2010-2014 14,9 17,0 16,0
við 70 ára aldur m.v. reynslu 2007-2011 14,5 16,7 15,6

Aukningin er að stærstum hluta vegna þess að eldra fólk lifir lengur en áður. Það má glögglega sjá þegar rýnt er í þróunina við 65 og 70 ára aldur.

Karlmenn geta nú vænst þess að lifa í 18,9 ár eftir 65 ára aldur m.v. dánarreynslu áranna 2010-2014. Það er aukning um 0,5 ár frá reynslu áranna 2007-2011. Lífslíkur karla við 70 ára aldur jukust um 0,4 ár á sama tíma. Konur lifa að jafnaði í 21,1 ár eftir 65 ára aldur m.v. reynslu áranna 2010-2014. Það er 0,3 árum en lengur þær gerðu að jafnaði á árunum 2007-2011. Það á bæði við um konur við 65 ára og 70 ára aldur.

Hlutfallsbreyting skuldbindinga

Hlutfallsleg hækkun á virði eftirlaunaskuldbindinga eftir aldri og kyni vegna nýrra á dánar- og eftirlifendataflna. Heimild: Félags íslenskra tryggingastærfræðinga og Hagstofa Íslands. Útreikningar actuary.is.

Samkvæmt þessu aukast skuldbindingar lífeyrissjóða, sem hafa hlutfallslega fleiri karla meðal sjóðfélaga, meira en hjá sjóðum þar sem konur eru fleiri.

Á meðfylgjandi mynd má sjá sjá hlutfallsbreytingu á virði skuldbindinga vegna eftirlauna eftir kyni og aldri. Útreikningarnir miða við að lífeyristökualdur sé 67 ár. Virðisbreytinging yrði ögn minni fyrir bæði kyn ef miðað væri við 65 ára lífeyristökualdur.

Nýjar dánar- og eftirlifendatöflur munu leiða til aukningar á virði skuldbindinga vegna eftirlauna karla um allt að 3,0% en um allt að 1,7% vegna eftirlauna kvenna.

 

 

Actuary.is óskar lesendum farsæls nýs árs!