Category Archives: Gagnagreining

Bæting nokkurra hlaupara í Reykjavíkurmaraþoni

Í síðustu færslu var fjallað um dreifingu lokatíma í Reykjavíkurmaraþoni sem fór fram í síðasta mánuði. Hér verður sjónum beint að dreifingu lokatíma þáttakenda í hálfu maraþoni undanfarin ár ásamt bætingu nokkura hlaupara, sem tekið hafa miklum framförum.

Bestu tímar og tíundarmörk

Bestu tímar og tíundamörk lokatíma í hálfmaraþoni, 1986-2013. Heimild: marathon.is/hlaup.is

Myndin til hægri sýnir sýnir dreifingu lokatíma í hálfu maraþoni fyrir öll ár frá 1986 til 2013. Eins og í fyrra innleggi er stuðst við upplýsingar á vef aðstandenda hlaupsins, marathon.is, og á vefnum Hlaup.is. Punktalínan á myndinni lýsir tíma sigurvegara hvers árs og heilu línurnar lýsa tíundarmörkum allra þátttakenda. Það þýðir að tíu prósent hlaupara luku á tíma sem er lægri en neðsta heila línan segir til um. Önnur tíu prósent þátttakenda luku á tíma sem er á milli fyrstu og annarrar heilu línunnar og svo koll af kolli. Tíu prósent þátttakenda luku hlaupi á tíma sem er yfir því, sem efsta línan segir til um.

Frá og með árinu 2003 var byrjað að mæla flögutíma, þ.e. tímann sem tekur hvern þátttakanda að hlaupa yfir ráslínu hlaupsins og í mark. Fyrir fyrri ár er stuðst við byssutíma, sem er tíminn frá ræsingu þar til hver og einn yfir marklínu.

Af tíundarmörkunum má greina greina að yfir 90% þátttakenda luku hálfu maraþoni á innan við tveimur klukkutímum árið 1986 en um helmingur árið 2013. Það þýðir þó ekki að þátttakendur hafi dregist aftur úr á hlaupunum með árunum. Þessi þróun er fremur í takt við auknar vinsældir sem hlaup njóta nú. Fyrsta árið luku 184 þátttakendur hálfu maraþoni en 2104 í ár. Fleiri hlaupa sér til ánægju og heilsueflingar og til að ná eigin markmiðum fremur en til að keppa við þá bestu.

Tímar nokkurra þátttakenda í hálfu maraþoni

Bestu tímar og tíundarmörk ásamt tímum nokkurra þátttakenda í hálfmaraþoni.

Áhugavert er þó að skoða bætingu nokkurra hlaupara í gegnum árin. Myndin til vinstri lýsir lokatíma nokkurra einstaklinga sem eiga það sameiginlegt að hafa tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoni árið 2013 og bætt sig jafnt og þétt undanfarin ár.

Þessir þátttakendur voru fundnir með því að skoða tima hlaupara, sem tekið hafa þátt a.m.k. fjórum sinnum og voru með í ár. Með aðhvarfsgreiningu var einfalt að finna hverjir sýndu mestar framfarir og þeir skoðaðir sérstaklega. Þeir, sem sýndir eru hér, voru valdir sérstaklega vegna þess að þeir hafa sýnt nokkuð jafnar framfarir undanfarin ár auk þess að bæta sig í ár. Fleiri þátttakendur bættu sig verulega þótt ferlum þeirra sé sleppt. Megi þetta verða öðrum hvatning um að gera betur ef þeir ætla sér svo.

Tímar í Reykjavíkurmaraþoni

Metþátttaka var í nýafstöðnu Reykjavíkurmaraþoni, sem fram fór um síðustu helgi. Rúmlega 850 þátttakendur hlupu heilt maraþon, yfir 2100 hlupu hálft maraþon og á sjötta þúsund manns hlupu 10 km. Þá eru ótaldir þeir sem tóku þátt í 3 km skemmtiskokki.

Myndin hérna á eftir sýnir dreifingu flögutíma þátttakenda í hálfu maraþoni. Hver súla táknar fjölda hlaupara, sem komu í mark á hverju fimm mínútna tímabili. Bláir litatónar lýsa fjölda karla í hverju aldursbili og rauðir litatónar fjölda kvenna. Tímarnir eru fengnir af vefsíðu aðstandenda hlaupsins, marathon.is, og af vefsíðunni Hlaup.is.

Dreifing flögutíma í hálfu maraþoni

Dreifing flögutíma í hálfu maraþoni. Hver súla táknar 5 mínútna bil. Heimild: marathon.is / hlaup.is.

Næsta mynd sýnir á sama hátt dreifingu flögutíma þeirra, sem hlupu heilt maraþon. Hver súla lýsir fjölda hlaupara sem komu í mark á hverju tíu mínútna tímabili. Bláir og rauðir litatónar lýsa kyn- og aldursdreifingu sem fyrr.

Dreifing flögutíma í heilu maraþoni

Dreifing flögutíma í heilu maraþoni. Hver súla táknar 10 mínútna bil. Heimild: marathon.is / hlaup.is.

Kynjahlutföll í læknadeild Háskóla Íslands

Síðasta föstudag var ég boðinn með konunni minni til að vera viðstaddur athöfn í tilefni af útskrift tveggja lækna, sem lokið höfðu sérnámi í líknandi meðferð frá háskólasjúkrahúsinu í Madison, Wisconsin. Þar hitti ég prófessor í krabbameinslækningum og líknandi meðferð, sem er áhugasamur um tölfræði í læknisfræði og samfélagsmiðla. Hann spurði mig um kynjahlutföll í læknadeild Háskóla Íslands, sem ég gat ekki svarað. Um helgina skoðaði ég gögn frá Háskóla Íslands um þessa þróun.

Hlutfall karla og kvenna meðal nýútskrifaðra lækna frá Háskóla Íslands. Gender ratios among graduates from University of Iceland, department of medicine. Heimild: Háskóli Íslands.

Hlutfall karla og kvenna meðal nýútskrifaðra lækna frá Háskóla Íslands. Heimild: Háskóli Íslands.
Gender ratios among graduates from University of Iceland, Department of Medicine. Source: University of Iceland.

Myndin til hægri sýnir hlutföll karla og kvenna meðal nýútskrifaðra læknakandídata frá Háskóla Íslands frá árinu 1973 til 2012. Punktarnir sýna hlutfallsskiptingu fyrir einstök ár en heilu línurnar eru nálgun með breyilegum margliðuföllum, sk. Loess-ferlum.

Árið 1973 útskrifuðust ein kona og þrjátíu karlar úr læknadeild Háskóla Íslands. Á áttunda og níunda áratugnum sóttu konur í sig veðrið en á tíunda áratugnum var aukningin hægari. Frá aldamótum hefur konum fjölgað hraðar og þær hafa verið í meirihluta allra útskritarárganga frá árinu 2006. Seinustu árinu hafa konur verið u.þ.b. 60% útskriftarnema en karlar um 40%.

Myndin byggir á upplýsingum af heimasíðu Háskóla Íslands fyrir útskriftarárganga 1993 og síðar og Árbók Háskóla Íslands fyrir fyrri ár.

English summary:

Last Friday, my wife and I were invited to a graduation ceremony for the UW-Madison fellowship program in hospice and palliative care. Dr. Jim Cleary, professor in oncology and palliative care, and social media geek by self description, was curious about gender ratios among graduates from the University of Iceland, Department of Medicine.

During the weekend I acquired data from the University of Iceland webpage and past annual reports. The figure above shows ratios of male and female graduates from the Department of Medicine at the University of Iceland. In 1973, one female graduated and thirty males. Now, fourty years later, female graduates have taken the lead. The dots represent each year's ratio and the solid lines are smoothed Loess-curves. Female graduates now account for about 60% of each class and males 40%.