Lífslíkur

Forsenda þess að verðleggja líftengdar tryggingarafurðir, hvort heldur er líftryggingar eða lífeyriseign, er að meta lífslíkur einstaklings, sem í hlut á.  Það er því við hæfi að fyrsta efnilega innleggið í þessu bloggi fjalli um mat á lífslíkum.

Til þess að meta lífslíkur er stuðst við upplýsingar um mannfjölda og andlát.  Í mannfjöldatöflum er alla jafna skráð hve mörg heil ár einstaklingar lifa.  Út frá upplýsingum um mannfjölda og andlát fyrir hvert aldursbil má reikna lífslíkur hvers aldursárs.  Að því gefnu er svo hægt að reikna ólifaða meðalævi, þ.e. fjölda ára sem einstaklingur getur vænst þess að lifa að því gefnu að hann sé á lífi við tiltekinn aldur.

Myndin hér fyrir neðan sýnir lífslíkur nýbura á Íslandi m.v. dánartíðni árið 2011 skv. tölum um mannfjölda og andlát, sem Hagstofa Íslands skráir.  Heilu línurnar tákna lífslíkurnar en brotastrikin tákna 95% öryggismörk.  Myndin byggir aðeins á tölum eins árs.  Í litlum þjóðfélögum má nota upplýsingar yfir lengra tímabil til þess að minnka óvissubilið.

Samkvæmt myndinni teljast 99,4% líkur á því að nýfætt sveinbarn nái 20 ára aldri og 99,7% líkur á því að stúlkubarn nái sama aldri.  Það eru 3,2% líkur á því að karlmaður deyji fyrir fimmtugt en 1,5% að það sama hendi konu.

Í samanburði á milli þjóða er venja að bera saman vænta ævilengd nýbura en á sama hátt má reikna vænta ólifaða meðalævi m.v. hvert aldursár.  Þannig má vænta að nýfætt sveinbarn nái um 80 ára aldri og stúlkubörn um 84 ára aldri.

Myndin hér að ofan sýnir væntingar um ólifaða meðalævi fyrir öll aldursár.  Nái karlmaður 80 ára aldri er væntur árafjöldi, sem hann á eftir ólifaða, u.þ.b. 8 ár.  Kona, sem nær sama aldri, á um 10 ár eftir ólifuð að meðaltali.