Tag Archives: Dánartíðni

Áhrif nýrra líftaflna á skuldbindingar lífeyrissjóða

Fjármál - vefrit FjármálaeftirlitsinsÍ gær kom út nýtt eintak Fjármála, vefrits Fjármálaeftirlitsins. Meðal efnis að þessu sinni er umfjöllun síðuhöfundar um áhrif nýrra líftaflna á skuldbindingar lífeyrissjóða. Þá er grein um fyrirhugaðar breytingar á löggjöf um vátryggingamarkaði eftir Sigurð Frey Jónatansson, tryggingastærðfræðing. Frétt Fjármálaeftirlitsins um útgáfuna má finna hér.

 

Forði lífeyristryggingar

Hér var fjallað um áhrif lengri lífaldurs á iðgjöld lífeyristrygginga sem duga til þess að standa undir greiðslum til eftirlaunaþega þegar lífeyrisaldri er náð. Í dæminu er miðað við að iðgjöld séu greidd í lífeyrissjóð frá 27 ára aldri til 67 ára aldurs þegar taka lífeyris, sem nemur 76% af launum, hefst. Í fyrri færslu voru bornar saman dánarlíkur sérhvers fimm ára tímabils frá 1970 til 2010 til þess að meta áhrif hækkaðs lífaldurs á iðgjöld. Dæmið er einfaldað og ekki er gert ráð fyrir öðrum bótum úr kerfinu auk þess sem kostnaði er sleppt.

Miðað við dánarlíkur áranna 2006 til 2010 þyrftu karlar að leggja fyrir 10% launa sinna en konur 11,3% til þess að kerfið geti staðið undir greiðslum eins og lagt er upp með. Niðurstöðurnar byggja á dánartíðni karla og kvenna skv. upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Gert er ráð fyrir 3,5% raunávöxtun í dæminu.

Forði lífeyristryggingar m.v. inngreiðslur á árunum 27 til 67 ára og útgreiðslur eftir það. Byggt á dánarlíkum 2006-2010.

Forði lífeyristryggingar m.v. inngreiðslur á árunum frá 27 til 67 ára aldri og útgreiðslur eftir það. Byggt á dánarlíkum 2006-2010 skv. Hagstofu Íslands.

Út frá þessum niðurstöðum má svo reikna út forða (reserve), sem þarf að vera til staðar á hverjum tíma svo tryggja megi greiðslur í samræmi við forsendur dæmisins, að því gefnu að einstaklingur nái þeim aldri. Forðinn táknar með öðrum orðum þær eignir, sem byggjast upp og ávaxtast í sjóðnum á meðan greiðslur iðgjalda standa yfir. Eftir að taka lífeyris hefst lækkar forðinn og fer niður í núll frá og með hæsta mögulega lífaldri, sem útreikningarnir gera ráð fyrir.

Myndin til hægri sýnir hvernig forðinn hækkar með veldisvexti frá upphafi greiðslna þar til 67 ára aldri er náð. Fyrir konur þarf forðinn að samsvara ríflega tíföldum árslaunum við 67 ára aldur en tæplega tíföldum árslaunum fyrir karla. Muninn má rekja til hærri lífaldurs kvenna en karla að jafnaði. Það er ögn einföldun að láta 100 ár vera takmarkandi aldur en það breytir lögun ferilsins ekki í meginatriðum.

Hækkun lífeyrisaldurs

Í þessari frétt á mbl.is frá því í síðustu viku er greint í mjög stuttu máli frá hugmynd nefndar um jöfnun lífeyrisréttinda um hækkun lífeyrisaldurs úr 67 ár í 70.  Þá er greint frá því að nefndin sé að skoða hvaða möguleikar séu færir til þess að lífeyrissjóðir geti greitt sem nemur 76% af ævitekjum til þess, sem greiðir í 40 ár í lífeyrissjóð.  Í ljósi þess er áhugavert að skoða þróun lífslíkna Íslendinga síðustu áratugina og hvaða áhrif lengri lífaldur hefur á iðgjaldagreiðslur miðað við óbreyttan lífeyrisaldur.

Þróun lífslíkna karla og kvenna 1971-2010

Þróun lífslíkna karla og kvenna 1971 til 2010. Heimild: Hagstofa Íslands

Myndin hérna til hægri byggir á gögnum frá Hagstofu Íslands og sýnir lífslíkur karla og kvenna á hverju fimm ára tímabili frá 1971 til 2010. Ferlarnir tákna hlutfall eftirlifenda á hverjum aldri (survival function) miðað við þá sem fæddir voru.  Í byrjun er 100% mannfjöldans á lífi en þeim fækkar eftir því sem líður á.  Við 100 ára aldur eru fáir eftirlifendur.

Ljósu ferlarnir svara til fyrstu tímabilanna en  síðari tímabil eru teiknuð með dekkri línunum.

Þessi gögn eru notuð til þess að meta núvirði greiðslna, sem sjóðsfélagi greiðir í lífeyrissjóð, sem og núvirði væntra lífeyrisgreiðslna.  Þær upplýsingar eru notaðar til þess að ákvarða iðgjald lífeyristryggingarinnar sem hlutfall af launum.  Eins og lýst er í fréttinni er gengið út frá því að sjóðsfélagar greiði iðgjöld frá 27 ára aldri til 67 ára aldurs eða á meðan þeir er á lífi.  Þeir sem ná að hefja töku lífeyris þiggja 76% af launum til æviloka.  Hér er einungis verið að bera saman áhrif hækkaðs lífaldurs og því ekki gert ráð fyrir öðrum þáttum, s.s. örorkubótum, launabreytingum á starfsævinni eða kostnaði við rekstur kerfisins.

Verð lífeyristrygginga 1971-2010

Iðgjald lífeyristrygginga 1971-2010 sem hlutfall af launum m.v. að greitt sé frá 27 ára aldri til 67 ára þegar taka lífeyris hefst. Lífeyrisgreiðslur eru 76% af launum.

Myndin til vinstri sýnir iðgjald sem hlutfall af launum miðað við lífslíkur karla og kvenna á hverju tímabili.  Verð lífeyristryggingar er reiknað sem hlutfall núvirðis lífeyrisgreiðslna deilt með núvirði iðgjalda.  Sökum væntinga um lengri ævi er hlutfallið hærra fyrir konur en karla.  Ljóst er að hækkaður lífaldur kallar á hækkun iðgjalda til að tryggja óbreytt hlutfall lífeyrisgreiðslna.  Árin 1971-1975 hefðu iðgjöld karla átt að vera 7,5% launa samanborið við 10% á árunum 2005-2010.  Hjá konum hefði hlutfallið þurft að vera 9,5% í byrjun en 11,3% í lokin.

Gera verður fyrirvara um að þessir útreikningar byggja á dánarlíkum hvers árabils en ekki spá um dánarlíkur í framtíðinni.  Ennfremur er rétt að hnykkja á þeim fyrirvara að útreikningarnir taka ekki tekið tillit til annarra bóta, sem greiddar eru úr samtryggingarkerfinu, eða rekstrarkostnaðar.