Tag Archives: Lífslíkur

Lífslíkur við starfslok

Í síðasta innleggi voru bornar saman lífslíkur eftir búsetu. Þar kom fram að meðalævilengd karla á Suðurlandi og i Suðvesturkjördæmi er lengri en hjá körlum í öðrum landshlutum. Konur á Norðurlandi vestra lifa að jafnaði lengur en aðrar konur á Íslandi. Útreikningarnir byggja á opinberum upplýsingum frá Hagstofu Íslands um dánartíðni og búsetu. Hér er stuðst við 10 ára tímabil frá 2003 til 2014 til að lækka óvissumörk.

Samkvæmt gögnunum má einnig reikna að meðalævi bæði karla og kvenna er styst á Reykjanesi. Miðað við 95% óvissumörk reynist vera marktækur munur á meðlævilengd kvenna á Reykjanesi og kvenna á landinu öllu. Munurinn er ekki tölfræðilega marktækur fyrir karla suður með sjó.

Lífslíkur karla og kvenna á Íslandi við 65 ára aldur

Lífslíkur karla og kvenna á Íslandi við 65 ára aldur byggt á dánartíðni áranna 2004 til 2013. Heimild: Hagstofa Íslands.

Með sömu aðferð er hægt að reikna meðalævilengd á hverju aldursári. Áhugavert er að skoða lífslíkur við starfslok. Með meðalævilengd við 65 ára aldur er átt við sk. skilyrt líkindi og útreikningarnir miða aðeins við þá sem ná þeim aldri.

Samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands má sjá að karlar eiga að jafnaði 18,2 ár ólifuð við 65 ára aldur en konur 20,6 ár. Myndin hér til hægri sýnir lífslíkur karla og kvenna á Íslandi við 65 ára aldur.

Landshluti Karlar ± Konur ± Mismunur
Landið allt 18,2 0,2 20,6 0,3 2,4
Reykjavík 17,8 0,4 20,5 0,4 2,7
Suðvestur 18,8 0,5 21,0 0,6 2,2
Vesturland 18,2 1,1 20,2 1,1 2,0
Vestfirðir 17,7 1,4 20,4 1,5 2,8
Norðurland vestra 18,5 1,3 21,1 1,5 2,7
Norðurland eystra 18,1 0,7 20,6 0,8 2,5
Austurland 18,5 1,2 20,6 1,3 2,1
Suðurland 18,6 0,9 20,7 0,9 2,1
Reykjanes 17,7 1,1 18,4 1,1 0,7
Lífslíkur kvenna á Íslandi við 65 ára aldur

Lífslíkur kvenna á Íslandi við 65 ára aldur byggt á dánartíðni áranna 2004 til 2013. Heimild: Hagstofa Íslands.

Röð landshluta í samanburði á meðalævilengd við 65 ára aldur er lítið frábrugðin meðalævilengd nýbura, sem fjallað var um í síðustu færslu. Meðalævi kvenna við 65 ára aldur er lengst á Norðurlandi vestra. Þar geta konur vænst þess að lifa 21,1 ár (±1,5) til viðbótar en munurinn er ekki tölfræðilega marktækur.

Konur, sem náð hafa 65 ára aldri og búa á Reykjanesi, geta vænst þess að lifa í 18,4 ár (±1,1) til viðbótar. Það telst vera tölfræðilega marktækur munur miðað við meðalævi allra kvenna á Íslandi, sem náð hafa 65 ára aldri.

Myndin hérna til vinstri sýnir lífslíkur kvenna við 65 ára aldur. Rauða línan lýsir meðaltali alls landsins en fjólubláa línan sýnir lífslíkur kvenna á Reykjanesi og brúna línan táknar Norðurland vestra. Brotastrikin tákna 95% öryggismörk.

Lífslíkur karla á Íslandi við 65 ára aldur

Lífslíkur karla á Íslandi við 65 ára aldur byggt á dánartíðni áranna 2004 til 2013. Heimild: Hagstofa Íslands.

Myndin hérna til hægri sýnir lífslíkur karla á Íslandi. Bláa línan táknar meðaltal á öllu landinu, græna línan lífslíkur karla á Reykjanesi og sú appelsínugula karla í Suðvesturkjördæmi

Lífslíkur 65 ára karla, sem búa í Suðvesturkjördæmi, eru 18,8 ár (±0,5) og lífslíkur karla á Reykjanesi eru 17,7 ár (±1,1). Þessi munur telst þó ekki vera tölfræðilega marktækur.

Þeir sem misstu af síðasta innleggi um meðalævilengd nýbura geta lesið meira hér.

 

 

 

 

 

Lífslíkur eftir landshlutum

Lífslíkur karla og kvenna á Íslandi.

Lífslíkur karla og kvenna á Íslandi byggt á dánartíðni áranna 2004 til 2013. Heimild: Hagstofa Íslands.

Áður hefur verið vikið að aðferðum við mat á lífslíkum, sem eru forsenda við verðlagningar á líftryggingum og lífeyristryggingum. Á fundi, sem Landsamband lífeyrissjóða og Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga stóðu fyrir í síðasta mánuði, spunnust umræður um hvort lífslíkur Íslendinga hefðu verið metnar eftir öðrum breytum en kyni, s.s. starfsstétt sem einstaklingar tilheyra. Það hafði ekki verið kannað að sögn þátttakenda í pallborði og á það var bent að flestir stórir lífeyrissjóðir hafa meðlimi í dreifðum starfsstéttum en fáir sjóðir hafa einsleita samsetningu sjóðsfélaga. Þeirra á meðal lífeyrissjóðir flugmanna, bænda og hjúkrunarfræðinga. Einnig var bent á að sumir lífeyrissjóðir störfuðu á afmörkuðu starfsvæði, t.d. sjóðir Vestfirðinga og Vestmannaeyjinga. Því gætu staðbundin frávik frá meðallífslíkum, sem sjóðirnir eru metnir út frá, haft áhrif á afkomu þessara sjóða.

Lífslíkur karla á Íslandi

Lífslíkur karla á Íslandi byggt á dánartíðni áranna 2004 til 2013. Heimild: Hagstofa Íslands.

Áhugavert er að reikna lífslíkur út frá gögnum Hagstofunnar, sem birtir upplýsingar um dánartíðni og búsetu eftir landsvæðum. Venja er að byggja tryggingafræðiútreikninga á dánartíðni fimm ára en til þess að lækka óvissumörk í þessum útreikningum er stuðst við dánartíðni tíu ára tímabils, frá 2004 til 2013. Taflan hér fyrir neðan sýnir væntan lífaldur eftir kyni og landshluta. Skekkjumörk í útreikningum miða við 95% óvissubil. Rétt er að hnykkja á því að ekki er um að ræða fæðingarstað einstaklinga og ekki er unnt að leiðrétta fyrir áhrifum flutninga milli landshluta sem kunna að vera háðir aldri, heilsufari og búsetu.

Þegar landinu er skipt upp eftir gömlu kjördæmunum auk Suðvesturkjördæmis kemur í ljós að væntur lífaldur karlmanna á Reykjnesi (78,6±1,5 ár), í Reykjavík (78,7±0,6) og á Vestfjörðum (78,8±2,1) er lægri en að landsmeðaltal (79,6±0,4). Hæstur er væntur lífaldur hjá körlum á Suðurlandi (80,7±1,2), í Suðvesturkjördæmi (80,7±0,8) og á Austurlandi (80,5±1,7). Vegna fámennis er ekki hægt að segja að munurinn sé marktækur.

Landshluti Karlar ± Konur ± Mismunur
Landið allt 79,6 0,4 83,1 0,3 3,5
Reykjavík 78,7 0,6 82,7 0,6 4,0
Suðvestur 80,7 0,8 84,0 0,7 3,3
Vesturland 80,0 1,6 83,1 1,5 3,1
Vestfirðir 78,8 2,1 83,7 2,0 4,9
Norðurland vestra 80,3 2,0 84,5 1,9 4,2
Norðurland eystra 79,8 1,1 83,3 1,1 3,4
Austurland 80,5 1,7 83,4 1,8 2,9
Suðurland 80,7 1,2 83,4 1,3 2,8
Reykjanes 78,6 1,5 80,7 1,4 2,1
Lífslíkur kvenna á Íslandi

Lífslíkur kvenna á Íslandi byggt á dánartíðni áranna 2004 til 2013. Heimild Hagstofa Íslands.

Fyrir konur er væntur lífaldur lægstur á Reykjanesi (80,7±1,4 ár), sem telst vera tölfræðilega marktækur munur. Næst lægstur er lífaldur kvenna í Reykjavík (82,7±0,6), sem er lægra en landsmeðaltal (83,1±0,3). Hæstur er væntur lífaldur kvenna á Norðurlandi vestra (84,5±1,9), í Suðvesturkjördæmi (84,0±0,7) og á Vestfjörðum (83,7±2,0).

Á tímabilinu sem hér er greint frá reyndist væntur lífaldur kvenna að jafnaði 3,5 árum lengri en karla á landinu öllu. Nokkur breytileiki er eftir landshlutum. Þannig er mismunur á væntri ævilengd styst á Reykjanesi (2,1 ár) en lengst á Vestfjörðum (4,9 ár).

Þegar Torfhildur Torfadóttir varð 105 árið 2009 ára vitnaði Morgunblaðið í Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Kári sagði að langlífi erfðist á mjög einfaldan hátt og að í ljósi þess hljóti mynstrið að fara nokkuð eftir landshlutum. Útreikningarnir hér koma heim og saman við tilgátu Kára þótt munurinn reynist ekki marktækur í öllum tilfellum.

Leiðrétting 16.12.2014: Í fyrstu útgáfu var sagt að ekki væri marktækur munur á meðalævilengd eftir landshlutum. Rétt er að það er tölfræðilega marktækur munur á meðalævilengd kvenna, sem búsettar eru á Reykjanesi, í samanburði við landið allt. Textinn hefur verið leiðréttur í samræmi við það.

Huldar skuldir

Vikuritið The Economist gerir fjármál Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum að umfjöllunarefni í nýjasta tölublaðinu. Tilefnið er hallarekstur ríkisins, sem nú hyllir fyrir endan á - a.m.k. ef marka skyldi ársreikninga. Í umræðu um fjármál einstakra fylkja Bandaríkjanna hefur Kaliforníuríki áður verið líkt við stöðu Grikklands í samanburði við önnur ríki Evrópu. Blaðið beinir sjónum sínum að skuldum Kaliforníu og sér í lagi að lífeyrisskuldbindingum. Þær eru sagðar að hluta vanmetnar miðað við reikningsskilareglur sem giltu ef um einkafyrirtæki væri að ræða.

Í leiðara blaðsins eru lífeyriskerfi ríkja Bandaríkjanna, sem svipað er ástatt með, gerð að umtalsefni. Þar kemur fram að í mörgum ríkjum skorti verulega á að til séu sjóðir til þess að mæta áföllnum skuldbindingum. Þá séu enn að falla á kerfin skuldbindingar, sem fyrirsjáanlega munu kosta skattgreiðendur meira en áætlað núvirði þeirra núna segir til um. Ritstjórn The Economist segir að stjórmálamenn hafi fyrir löngu áttað sig á hagkvæmi þess að bjóða opinberum starfsmönnum góð eftirlaunakjör. Það tryggi þeim atkvæði en reikninginn þurfi ekki að senda fyrr en síðar.

Lífeyriskerfi skiptast almennt í tvo flokka; kerfi með föst skilgreind réttindi sjóðsfélaga (defined benefit) og kerfi með fast skilgreint sparnaðarhlutfall (defined contribution). Í fyrrnefnda flokknum eru lífeyrisréttindi fest við tiltekið hlutfall ævilauna og taka þá oftast mið af launum síðustu ára starfsævinnar. Með skilgreindu sparnaðarhlutfalli er um að ræða sjóðssöfnun en ávöxtun ræður á endanum útgreiðslum, sem sjóðsfélagi nýtur.

Það er rakið í nokkrum liðum hver meginvandi ríkjanna sé vegna lífeyrisskuldbindinga, sem tryggja föst réttindi. Sum ríki leyfi starfsmönnum að hámarka laun t.d. með yfirvinnu á lokaárum starfsævinnar og það auki greiðslur til þeirra eftir að taka eftirlauna hefst. Þá séu skuldbindingar ríkjanna núvirtar með æði hárri ávöxtunarkröfu, sem sjóðum þeirra er ætla að ná. Nefnd er vænt ávöxtunarkrafa upp á 7,5% en á síðustu misserum hefur krafa langra ríkisskuldabréfa bandaríska ríkisins nálgast tvö prósentustig. Hærri ávöxtunarkrafa þýðir að núvirði framtíðargreiðslna sé áætlað lægra en ella. Einkafyrirtæki núvirða skuldbindingar sínar með 4,7% ávöxtunarkröfu, sé miðað við miðgildi, og mörg hver hafa lokað sínum kerfum með föst skildgreind réttindi fyrir nýjum sjóðsfélögum.

Leiðarahöfundar nefna að matsfyrirtæki eins og Moody's séu farin að nota markaðskröfu vegna lífeyrisskuldbindinga við mat á greiðsluhæfi einstakra ríkja Bandaríkjanna. Nefnd eru dæmi um ríki sem vantar hvað mest upp á að eigi sjóði til þess að mæta lífeyrisgreiðslum. Eftirlaunasjóður Illinois-ríkis eigi t.a.m. um 40% til að mæta áföllnum skuldbindingum og New Jersey 53%. Auknar lífslíkur leiða sömuleiðis til aukinna skuldbindinga. Nefnt er að CalSTR, eftirlaunasjóður kennara, þurfi árlega meðgjöf Kaliforníuríkis upp á 4,5 milljarða Bandaríkjadala næstu 30 árin. Bara sú fjárhæð er hærri en áætlaður afgangur þessa árs.

Höfundar klikkja út með því að tími sé til að breyta og hætta að bjóða eftirlaun, sem taki mið af lokalaunum. Eftirlaunasjóðir verði á endanum þurrausnir og þurfi skattgreiðendur að greiða það sem út af muni standa.